Eins og sunnlenska.is greindi frá í morgun er tilraunarekstur hreinsistöðvar við Hellisheiðarvirkjun hafinn og á næstu dögum hefst niðurdæling brennisteinsvetnis, sem hreinsað hefur verið úr útblæstri virkjunarinnar.
Í tilkynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur segir að við það breytist tilhögun niðurrennslis vinnsluvatns frá virkjuninni og getur það valdið hreyfingu á jarðlögum. Orkuveitan mun framvegis birta tilkynningar um slíkar breytingar, en þær geta aukið líkur á jarðskjálftum sem gætu fundist í byggð.
Hreinsistöðin ræst
Nú er búið að ræsa hreinsistöð sem mun skilja brennisteinsvetni úr gufuútblæstri einnar af sex vélum Hellisheiðarvirkjunar. Þetta er þróunar- og nýsköpunarverkefni sem miðar að því að draga úr lyktarmengun frá virkjuninni á sem umhverfisvænstan og hagkvæmastan hátt. Hreinsunarverkefnið byggist á niðurstöðum vísindarannsókna sem staðið hafa við virkjunina allt frá árinu 2007. Gangi rekstur stöðvarinnar eins og vænst er, verður hún stækkuð. Slík ákvörðun verður ekki tekin fyrr en að fenginni eins árs rekstrarreynslu. Þess vegna hefur Orkuveitan farið fram á undanþágu frá hertum ákvæðum reglugerðar um styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti, sem ganga eiga í gildi í sumar. Reksturinn stenst núgildandi mörk í reglugerðinni.
Ýmsar upplýsingar um brennisteinsvetni og tengla á rauntímamælingar á styrk þess eru hér.
Breyting á niðurrennsli
Brennisteinsvetnið, sem skilið er frá gufunni, er blandað vinnsluvatni frá virkjuninni áður en því er dælt niður fyrir grunnvatnsstrauma í berggrunninum við virkjunina. Niðurstöður tilrauna gefa til kynna að þar bindist það berglögum sem brennisteinskís, sem betur er þekkt sem glópagull. Þannig er þessum fylgisfiski jarðgufunýtingarinnar skilað þangað sem hann kom. Vinnsluvatnið, sem blandað er í, er heldur kaldara en það sem dælt hefur verið niður fram að þessu. Við þá breytingu telja vísindamenn að tímabundið séu auknar líkur á að jarðskjálftar verði á niðurdælingarsvæðinu. Slíkir jarðskjálftar gætu náð þeirri stærð að finnist vel í byggð.
Aukin upplýsingagjöf
Eftir að snöggar breytingar í niðurrennsli frá Hellisheiðarvirkjun, sem urðu haustið 2011, hleyptu af stað svokölluðum gikkskjálftum, sem fundust vel í byggð, kallaði Orkuveitan til hóp óháðra vísindamanna til að fara yfir stöðuna. Í skýrslu vísindafólksins, sem gefin var út haustið 2012, er áhersla lögð á aukna upplýsingagjöf til almennings verði snöggar breytingar á niðurrennslinu. Að höfðu samráði við sveitarstjórnir og almannavarnir var ákveðið að Orkuveitan sendi Veðurstofunni og almannavörnum tilkynningu ef fyrirséðar væru breytingar á niðurdælingu vinnsluvatns frá Hellisheiðarvirkjun eða þær hefðu orðið af ófyrirséðum ástæðum. Mun það verða gert hér eftir og munu tilkynningar á borð við þessa verða birtar opinberlega, þegar tilefni þykir til:
Orkuveitan, sveitarstjórn, lögreglustjórinn á Selfossi og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra vilja vekja athygli á því að vegna breytinga í tengslum við niðurdælingu hjá Hellisheiðarvirkjun þá telja vísindamenn að tímabundið séu auknar líkur á að jarðskjálftar verði á niðurdælingarsvæðinu. Slíkir jarðskjálftar gætu náð þeirri stærð að finnst vel í byggð.
Jafnframt mun Orkuveitan gera sömu aðilum viðvart þegar talið er að áhrifa breytinganna gæti ekki lengur.