Að sögn Einars E. Einarssonar, ráðunauts loðdýra, er augljóst að talsverður áhugi er fyrir því að fjölga loðdýrabúum hér á landi og þá ekki síst á Suðurlandi.
,,Ég spái því að hér muni rísa nokkur ný bú á næstu árum enda greinum við talsvert aukin áhuga,“ sagði Einar í samtali við Sunnlenska.
Bændasamtökin og Íslandsstofa tóku höndum saman fyrir ári síðan og hófu ákveðið kynningarstarf á þeim möguleikum sem eru til loðdýraeldis hér á landi en nú eru 22 minkabú á landinu. Hafa verið haldnar kynningar fyrir erlendum aðilum og er þeim einkum beint að Danmörku og Hollandi. Að sögn Einars hefur mátt greina aukin áhuga á þessu en það vanti að reka endahnútinn á sum þessara verkefna.
Einar staðfesti aukin áhuga á Suðurlandi þar sem nokkrir aðilar væru að hugsa sér til hreyfings. Á Mörk í Gnúpverjahreppi er rekið stærsta minkabú landsins. Fyrir skömmu greindi Sunnlenska frá því að verið væri að skoða byggingu bús sem gæti hýst 3.000 til 8.000 læður rétt hjá Stokkseyri en í dag eru um 9.000 minkalæður á öllu Suðurlandi.
,,Rekstrarskilyrði í greininni eru gjörbreytt, bæði vegna stöðu krónunnar og svo hefur heimsmarkaðsverð verið hækka. Það er því skiljanlegt að margir vilji skoða þennan möguleika núna. Menn eru hins vegar nokkurn tíma að taka við sér,“ sagði Einar.