
Aukinn kraftur hefur nú færst í framkvæmdir vegna byggingar nýrrar brúar yfir Ölfusá og færslu þjóðvegar 1 út fyrir þéttbýlið á Selfossi. Stöðugt fjölgar mannskap og tækjum á framkvæmdasvæðinu.
„Í dag starfa við framkvæmdina á verkstað um 20 starfsmenn á vegum verktaka auk eftirlits- og mælingamanna. Einnig starfa við framkvæmdina hönnuðir, fageftirlitsmenn, ráðgjafar og umsjónarmenn framkvæmdarinnar á vegum Vegagerðarinnar,“ segir Tómas Ellert Tómasson í samtali við sunnlenska.is.
Tómas Ellert, sem er byggingarverkfræðingur, er staðarstjóri eftirlits við framkvæmdina og starfar hjá norska fyrirtækinu Norconsult.
„Nú er jarðvegsrannsóknum lokið og er stefnt að því að framkvæmdir við undirstöður brúarinnar hefjist í byrjun maí. Þá er vinna í gangi við að koma upp varnargarði í Ölfusá þar sem 40 metra löng bráðabirgðabrú mun sitja á og tengjast við Efri-Laugardælaeyju svo aðföng og tæki eigi greiða leið að framkvæmdasvæði eyjunnar,“ bætir Tómas Ellert við.

Sprengt í næstu viku
Í vetur hafa verktakar unnið að því að koma sér upp aðstöðu austan ár og þeim megin hefur einnig verið unnið að jarðvegsskiptum í vegstæðinu. Vinna við vegskeringar vestan árinnar er hafin og þess vegna er búið að loka tveimur göngustígum í Hellisskógi. Sprengingar hafts við árbakkann vestan megin munu hefjast í næstu viku.
„Við viljum benda fólki að fara að öllu með gát er það er á ferð við framkvæmdasvæðið og fylgjast vel með öllum leiðbeiningum og upplýsingum sem finna má á skiltum á framkvæmdasvæðinu. Við beinum þeim tilmælum til foreldra barna sem að þurfa að nota Laugardælaveg til að komast á golfvallarsvæðið að kynna þeim fyrir skiltum og leiðbeiningum sem hafa verið og munu verða sett upp þar sem að framkvæmdasvæðið skarast við Laugardælaveg. Stór tæki þurfa að eiga þar leið um og því er afar mikilvægt að foreldrar kenni börnunum að ferðast um svæðið og fari yfir með þeim hvað stendur á skiltunum og hvað þau þýða,“ segir Tómas Ellert og bætir við að stranglega bannað sé að fara inn á framkvæmdasvæðið án leyfis.

Hægt að fá kynningu á staðnum
Frá sumarbyrjun og til verkloka mun staðareftirlit taka á móti hópum og veita þeim upplýsingar og sýna framkvæmdina á fyrirfram ákveðnum gönguleiðum. Hægt verður að hafa samband við Tómas Ellert og óska eftir slíkum kynningum og ferðum um framkvæmdasvæðið með því að senda tölvupóst á tomas.ellert@norconsult.com eða í síma 853 8 358.