Auknar líkur á skriðuföllum á Suðurlandi

Skriða sem féll í vor austan við Drangshlíð undir Eyjafjöllum. sunnlenska.is/Sigurður Hjálmarsson

Myndarleg lægð er suðvestur af landinu um þessar mundir, og munu skil hennar þokast yfir landið í dag, föstudag, og yfir helgina. Veðurspá gerir ráð fyrir rigningu köflum víðsvegar á landinu yfir helgina, en mun ákefðin vera mest á sunnan- og suðaustanverðu landinu og einnig á Ströndum.

Spáð uppsöfnuð úrkoma er mikil á Suður- og Suðausturlandi, um 399 mm á 66 klst á Mýrdalsjökli, yfir 400 í Öræfum og einnig mikið austan Vatnajökuls. Þetta úrkomumagn telst þó ekki talsvert fyrir þessi svæði. Sterkir vindar eiga að fylgja þessu veðri og því getur úrkomumagn verið mikið í hlíðum áveðurs.

Við slíkar aðstæður má búast við vatnavöxtum í ám og lækjum en samfara því eykst hætta á skriðum og grjóthruni í bröttum hlíðum. Aukin skriðuhætta getur varað eftir að mesta rigning er búin. Í tilkynningu frá Veðurstofunni er fólki ráðlagt að sýna aðgát næstu daga á þekktum skriðusvæðum.

Veðurstofan þiggur ábendingar um skriður
Allar ábendingar um skriður eru vel þegnar en Veðurstofan heldur utan um skráningar á skriðuföllum í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands. Það er hægt að hafa samband í síma 522-6000 eða nota skráningarform á vef Veðurstofunnar sem finna má undir „Tilkynna snjóflóð“ bæði á snjóflóðaforsíðu og eins undir Ofanflóð (listi t.v.) en þetta vefform dugar jafnt til skráninga á skriðuföllum og snjóflóðum. Gott er að hafa mynd af skriðum og nákvæma staðsetningu auk tímasetningu, hvenær skriða fór eða hvenær fólk varð vart við skriðu.

Fyrri greinGul viðvörun: Tjöld geta fokið
Næsta greinLaufey er nútíma bensínstöð – án bensíns