Auknar tilkynningar hafa aukið áhyggjur

Selfoss. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Í gær barst foreldrum og forráðamönnum grunnskólabarna í Árborg bréf frá Braga Bjarnasyni bæjarstjóra Árborgar og Heiðu Ösp Kristjánsdóttur sviðsstjóra fjölskyldusviðs. Í bréfinu eru foreldrar eru hvattir til þess að ræða við börnin sín um alvarleika þess að beita ofbeldi og bera á sér vopn af einhverju tagi.

„Auknar tilkynningar undanfarnar vikur hafa aukið áhyggjur okkar og sérstaklega hvað varðar vopnaburð og ofbeldi barna gegn börnum. Það er sameiginleg ábyrgð okkar sem samfélags að hugsa um velferð barnanna okkar og hef ég fulla trú á að við getum snúið við þessari þróun,“ segir Bragi Bjarnason, bæjarstjóri Árborgar, í samtali við sunnlenska.is.

Í bréfinu segir borið hafi á því undanfarna mánuði að börn hafi bæði beitt og verið beitt alvarlegu ofbeldi af öðrum börnum. Í einhverjum tilfellum er grunur um vopnaburð, frelsissviptingu og dreifingu myndefnis af ofbeldinu.

Vinnuhópur skipaður
Minnt er á það í bréfinu að í skóla- og frístundastarfi sé allur vopnaburður stranglega bannaður og ef barn verður uppvíst að því að bera vopn sé vopnið gert upptækt, haft samband við foreldra og málið tilkynnt til lögreglu og barnaverndar án undantekninga. Áréttað er mikilvægi þess að ungmenni viti að vopnaburður á almannafæri sé lögbrot. Brot geta varðað sektum eða fangelsi, allt að fjórum árum. Dreifing myndefnis án samþykkis hlutaðeigandi getur varðað við persónuverndarlög.

Skipaður hefur verið vinnuhópur á vegum framkvæmdateymis Öruggara Suðurlands og mun vinnuhópurinn hefja vinnu við að kortleggja stöðu ungmenna í Árborg með tilliti til áhættuhegðunar og skila inn tillögum að úrræðum.

Aðspurður hvort það standi til að verja auknum fjármunum í verkefnið segir Bragi að ekki hafi verið tekin ákvörðun um það á þessu stigi. „En bæði vinnuhópur á vegum samráðsvettvangsins „Öruggara Suðurland“ og forvarnarteymi Árborgar munu leggja fram aðgerðaáætlun um fræðslu og önnur viðbrögð sem vonandi í samstarfi við skóla, heimili og frístundastarfið hjálpar börnunum okkar,“ segir Bragi ennfremur.

Bragi Bjarnason. Ljósmynd/Aðsend

Bréfið í heild sinni:

Kæru foreldrar/forsjáraðilar

Í kjölfar þeirra ógnvænlegu atburða sem átt hafa sér stað undanfarið, bæði á höfuðborgarsvæðinu og hér í Árborg, þar sem börn hafa verið beitt alvarlegu ofbeldi af öðrum börnum, vill fjölskyldusvið Árborgar hvetja foreldra til þess að ræða við börnin sín um alvarleika þess að beita ofbeldi og bera á sér vopn af einhverju tagi.

Því miður hefur borið á því undanfarna mánuði að börn hafa bæði beitt og verið beitt alvarlegu ofbeldi af öðrum börnum, í einhverjum tilfellum er grunur um vopnaburð, frelsissviptingu og dreifingu myndefnis af ofbeldinu.
Í skóla- og frístundastarfi er allur vopnaburður stranglega bannaður og ef barn verður uppvíst að því að bera vopn er það gert upptækt, haft samband við foreldra og málið tilkynnt til lögreglu og barnaverndar án undantekninga. Mikilvægt er að ungmennin okkar að viti að vopnaburður á almannafæri er bannaður skv. 30. gr. vopnalaga. Brot geta varðað sektum eða fangelsi, allt að fjórum árum. Dreifing myndefnis án samþykkis hlutaðeigandi getur varðað við persónuverndarlög.

Framkvæmdateymi Öruggara Suðurlands hefur nú þegar skipað vinnuhóp sem mun hefja vinnu við að kortleggja stöðu ungmenna hér í Árborg m.t.t. áhættuhegðunar og skila inn tillögum að úrræðum. Kallaður hefur verið saman aðgerðarhópur forvarnarteymis Árborgar sem mun setja fram áætlun er snýr að forvörnum og fræðslu með sérstaka áherslu á áhættuhegðun ungmenna.

Staðreyndin er samt sem áður sú að foreldrar gegna lykilhlutverki í lífi barna sinna. Sveitarfélagið vill þar af leiðandi skora á og hvetja foreldra til þess að hlúa að börnum sínum, ræða við þau um þær áskoranir sem uppi eru hverju sinni í þeim tilgangi að fræða en ekki hræða. Góðar upplýsingar fyrir foreldra er að finna á heimasíðu Árborgar þar sem fram koma bæði leiðbeiningar til foreldra í gegnum síðuna 112 auk myndbanda sem sveitarfélagið hefur framleitt. Einnig er að finna verklagsreglur um viðbrögð þegar bregðast þarf við/stöðva óásættanlega og/eða skaðlega hegðun nemenda í grunnskólum Árborgar.

Starfsfólk fjölskyldusviðs mun leggja þunga áherslu á það á komandi misserum að stöðva og sporna gegn ofbeldi og vopnaburði barnanna okkar. Mikilvægi samvinnu heimila, skóla og frístundastofnana skiptir höfuðmáli því öll berum við sameiginlega ábyrgð á velferð barnanna okkar í Árborg.

TENGDAR FRÉTTIR:
Líta aukinn vopnaburð ungmenna alvarlegum augum

Fyrri greinEfnilegir heimastrákar skrifa undir meistaraflokkssamning
Næsta greinBati í rekstri Árborgar