Aukning í sölu og framleiðslu

Mikil aukning hefur verið í slátrun nautgripa undanfarið en landsframleiðslan jókst um tæp 9% á síðasta ári. „Bið eftir slátrun er svona tvær til þrjár vikur,“ segir Þorgils Torfi Jónsson, sláturhússtjóri á Hellu.

Framboðið hefur verið ágætt að hans sögn og því ætti ekki að vanta nautakjöt í kjötborðin í verslununum. Aukningin á milli ára í framleiðslunni gerir það að verkum að innflutningur hefur dregist saman og er að sögn Torfa orðinn sáralítill.

„Það er gleðiefni fyrir íslenska neytendur, að nægt framboð sé af góðri innlendri vöru,“ segir hann og bætir við að útlitið sé ágætt framundan hvað varðar bæði framboð og sölu.

Fyrri greinHamarskonur í frábærri stöðu
Næsta greinMesta aukningin í tengslum við Landeyjarhöfn