Aurskriða féll um klukkan sex í gærkvöldi fyrir ofan bæinn Hof í Öræfum og stöðvaðist skammt frá íbúðarhúsi þar.
Skriðan fór í gegnum áratuga gamlan skógarreit og olli skemmdum á honum og girðingum við bæinn en að sögn lögreglunnar á Suðurlandi virðist ekki vera annað tjón við fyrstu sýn. Skriðan verður skoðuð betur í björtu í dag.
Lögreglan á Suðurlandi fékk nokkrar aðstoðarbeiðnir vegna vatnselgs austantil í umdæminu í gær en mikil rigning var á svæðinu. Á Höfn safnaðist víða upp vatn á götum og hafði fráveitukerfi illa við úrkomunni. Ekki er þó vitað um tjón vegna þessa.