Ávaxtaáskrift í Reykholtsskóla

Undanfarið hefur staðið yfir tilraun í Grunnskóla Bláskógabyggðar í Reykholti með að gefa nemendum og kennurum færi á að fá ávexti og grænmeti í áskrift í stað þess að þurfa að taka nesti með sér að heiman í skólann.

Þetta hefur mælst ákaflega vel fyrir og nú þegar þessari tilraun er að ljúka er útlit fyrir að nær allir, sem blaðamaður Sunnlenska hafði samband við, kysu að vera áfram í áskrif. Kostirnir væru margir, kostnaður við áskriftina væri lítill, krakkarnir fengju ferska og holla ávexti og grænmeti og foreldrar þyrftu ekki að standa í því að versla og finna til nesti fyrir börnin.

Krakkar 5. bekkjar Reykholtsskóla tóku undir þetta með Öglu Þyri Kristjánsdóttur, umsjónarkennara sínum, og sögðust himinlifandi yfir því að fá ávextina. Það væri alltaf eitthvað mismunandi sem þau fengju en augljóst var að mjög skiptar skoðanir voru uppi um hvað væri best og hvað smakkaðist verst.

Jón K.B. Sigfússon, matráður í mötuneyti skólans, sér um að útvega ávextina og grænmetið og sneiða það niður fyrir nemendurna. Hann er nýtekinn við mötuneytinu eftir nokkurra ára hlé og er staðráðinn í að gera það að besta skólamötuneyti landsins. Jón segir allt grænmetið vera sótt til garðyrkjubænda heima í héraði og að hann velji ávextina eftir því hvar hann fái þá ferskasta og besta í hvert og eitt skipti. Hann er líka sannfærður um hagkvæmni þess að útbúa ávextina fyrir skólann því starfsfólkið í mötuneytinu sé hvort eð er við vinnu og því lítið mál fyrir það að sinna þessari aukavinnu.

Fyrri greinSuðurlandsundirlendi hentar vel undir vindrafstöðvar
Næsta greinSvandís áfrýjar til Hæstaréttar