Aldís Hafsteinsdóttir verður áfram bæjarstjóri í Hveragerði og Unnur Þórmóðsdóttir verður forseti bæjarstjórnar.
Ný bæjarstjórn Hveragerðisbæjar kom saman til fyrsta fundar í gær, sunnudag. Í nýafstöðnum kosningum hlaut Sjálfstæðisfélag Hveragerðis 64,4% atkvæða eða hreinan meirihluta og fimm menn kjörna. A-listinn í Hveragerði hlaut 35,6% og tvo menn kjörna.
Á fundinum var samþykkt að Aldís verði ráðin bæjarstjóri en hún hefur gegnt því embætti undanfarin fjögur ár. Forseti bæjarstjórnar verður Unnur Þormóðsdóttir og varaforseti Ninna Sif Svavarsdóttir.
Í bæjarráð voru kosnir Sjálfstæðismennirnir Guðmundur Þór Guðjónsson, Eyþór H. Ólafsson og oddviti A-listans, Róbert Hlöðversson. Nýr meirihluti hefur ákveðið að árlega muni bæjarfulltrúar skipta með sér verkum þannig að nýr forseti og nýjir aðilar í bæjarráð verða skipaðir að ári.
Í samtali við sunnlenska.is segir Aldís að helstu verkefni nýrrar bæjarstjórnar verði að takast á við erfitt efnahagslegt umhverfi. „Það þarf að nýta allar leiðir til að auka atvinnu á svæðinu um leið og íbúum Hveragerðisbæjar verða búnar bestu mögulegu aðstæður í fallegu og gróskumiklu umhverfi,“ segir Aldís.