Stærðarinnar grenitré var fellt í Borgarhrauni í Hveragerði í dag og flutt í Smágarðana við Breiðumörk þar sem það mun þjóna sem jólatré Hvergerðinga í ár.
Það voru hjónin Björn Friðriksson og Lilja G. Ólafsdóttir í Borgarhrauni 6 sem gáfu tréð í ár. Það var óneitanlega tilkomumikil sjón að sjá þegar tréð var flutt og er ekki að efa að þau Bjössi og Lilja munu nú njóta mun meiri sólar í garðinum sínum en áður.
Kveikt verður á ljósum á jólatrénu í Smágörðunum næstkomandi sunnudag kl. 17. Skátarnir munu bjóða viðstöddum uppá heitt kakó og kruðerí og svo munu jólasveinarnir úr Reykjafjalli væntanlega líta við á svæðinu.