Bæjarráð Hveragerðis fordæmir harðlega þá ákvörðun að svæðisskrifstofa Vinnueftirlitsins verði flutt frá Hveragerði til Selfoss.
Vegna óvæntra frétta um að til standi að flytja svæðisskrifstofu Vinnueftirlitsins frá Hveragerði til Selfoss bókaði bæjarráð Hveragerðis undrun sína vegna málsins á fundi sínum í morgun.
„Vinnueftirlitið hefur haft skrifstofu sína í Hveragerði í áratugi og er í dag í afar góðu sérhönnnuðu húsnæði sem hentar Vinnueftirlitinu vel. Er þetta eina starfsemin sem rekin er á vegum ríkisins í Hveragerði ef undan er skilin heilsugæslan. Þykir okkur því lítill sómi að því að færa þessi fimm stöðugildi á Selfoss og valda þar með enn meiri skekkju en orðin er í dreifingu starfa á vegum ríkisins. Ekkert getur í fljótu bragði skýrt þessa ákvörðun sem bæjarfulltrúar í Hveragerði fordæma harðlega um leið og þeir hvetja félagsmálaráðherra til að endurskoða ákvörðun sína,“ segir í bókun bæjarráðs.