Bæjarstjórn Hveragerðis ákvað á fundi sínum í síðustu viku að leysa til sín jörðina Friðarstaði og ásamt spildu úr landi Vorsabæjar. Bæjarstjórnin greiðir ábúendum 63 milljónir.
RÚV greinir frá þessu.
Í samkomulaginu kemur fram að ábúandinn, Diðrik Jóhann Sæmundsson, hafi ekki séð sér annað fært en að óska eftir því að bærinn leysti jörðina til sín eftir dóm Hæstaréttar í apríl á síðasta ári. Sunnlenska.is greindi frá málinu síðasta sumar.
Í dómsmálinu krafði Diðrik bæinn um bætur þar sem hann taldi að gildistaka deiliskipulags fyrir lóðina hefði leitt til rýrnunar á verðmæti jarðarinnar. Og að það hefði valdið honum fjárhagslegu tjóni þegar bærinn synjaði honum leyfi til að breyta gróðurhúsi í hesthús.
Þrátt fyrir samkomulagið heldur Diðrik eftir öllum mögulegum kröfum sem hann kann að eiga á hendur Viðlagatryggingu. Fram kemur í samningnum að hann telji umtalsverðar jarðskjálftaskemmdir vera á jörðinni og að í gegnum land Friðarstaða liggi jarðskjálfta-og jarðhitasprungur.
Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hveragerðis, segir í samtali við fréttastofu RÚV að þetta sé ánægjulegt fyrir Hvergerðinga og farsæl lausn. Þetta þýðir að hægt verði að auka við það land sem „þetta landlitla bæjarfélag hefur til umráða.“