Bæta aðgengi að Knarrarósvita

Knarrarósviti.

Sveitarfélagið Árborg ætlar að bæta aðgengi við Knarrarósvita, austan við Stokkseyri, í samvinnu við ábúendur á Baugsstöðum.

Guðmundur Árni Sigurðsson og Sjöfn Þórarinsdóttir á Baugsstöðum sendu bæjarráði Árborgar bréf í apríl þar sem þau greindu frá fyrirætlunum sínum að nýta svæðið í kringum vitann sem beitarland undir búfénað.

Til þess að búfjárbeitin og gestagangurinn að vitanum fari saman þarf að girða af slóðann sem liggur að vitanum og áfram niður í fjöruna. Í bréfi sínu til bæjarráðs segja Guðmundur og Sjöfn að ef ekki verði hægt að girða af svæðið sjái þau sér ekki annað fært en að meina fólki aðgang að svæðinu á meðan búfénaður gengur þar laus, frá júní fram í september.

Gerð hafi verið tilraun til hrossabeitar á svæðinu sumarið 2014 en reynslan af því hafi ekki verið góð þar sem gangandi vegfarendur skildu gönguhlið oft eftir opið sem varð til þess að hrossin sluppu ítrekað úr girðingunni og eitt þeirra þurfti að aflífa eftir að það varð fyrir bíl.

Guðmundur og Sjöfn lögðu það til við bæjarráð að sveitarfélagið myndi greiða efniskostnað við girðinguna en þau myndu sjálf sjá um að girða og viðhalda girðingunni.

Bæjarráð samþykkti að veita styrkinn til efniskaupanna en fjármagnið verður tekið af styrk sem Sveitarfélagið Árborg fékk úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða til að bæta aðgengi við vitann.

Fyrri grein„Á ferju um Flóa“ í Forsæti
Næsta greinSelfoss fékk heimaleik gegn Val