Baðlón og hótel í Hveradölum

Ráðgert er að byggja upp tíu þúsund fermetra baðlón ásamt hóteli í Hveradölum. Um er að ræða lón í líkingu við Bláa lónið. Það er Grettir Rúnarsson, í Svínhaga á Rangárvöllum, sem gert hefur samning við Orkuveitu Reykjavíkur um fyrirhugaðar framkvæmdir.

Málið hefur hlotið jákvæða umfjöllun í sveitarstjórn Ölfuss. Grettir keypti Skíðaskálann í Hveradölum fyrir tveimur árum og hefur haft hugmyndir um mikla uppbyggingu þar síðan.

„Ætlunin er að þarna verði þjónusta við ferðafólk, Íslendinga sem útlendinga, allt árið um kring,“ segir Grettir í samtali við blaðið. Hann hefur gert samning við Orkuveituna um kaup á kísilvatni í lónið og leigusamning á um 46 hekturum á svæðinu, sem er í eigu OR. Baðlónið mun standa innst í Stóradal.

Fyrirhugað er að koma upp skíðalyftum aftur í Hveradölum og efst við lyftuendann verður einnig heitur pottur, sem Grettir kallar norðurljósapoll, þar sem hægt verður að virða fyrir sér útsýni ofan af fjallinu.

„Þar verður eflaust gott að fylgjast með norðurljósum að vetri, en það verður líka opið á sumrin,“ segir Grettir. Hann segist sjá fyrir sér að fólk nýti sér þetta útivistarsvæði, ekki síst Íslendingar sem vilji koma við í lóninu á ferð sinni um Hellisheiði.

Hótelbyggingin verður nær skálanum, um 100 herbergi. Þessa dagana er lögð lokahönd á skýrslur sem snúa að deiliskipulagi og gerðar athuganir á því hvernig vatni verður fargað. „Ætlunin er að dæla því niður fyrir grunnvatn,“ segir Grettir, en það er um 400 til 600 metrar. Ekki er langt í vatnsverndarsvæði en Grettir segir uppbyggingu lóns ekki munu hafa áhrif.

„Þetta er vissulega allt leyfum háð,“ segir Grettir. Ef allt fari að óskum ætti að vera hægt að hefja framkvæmdir að ári liðnu. Gerð lónsins væri fyrsti áfanginn.

Fyrri grein2. flokkur áfram í bikarnum
Næsta greinÖrmagna göngumaður á Fimmvörðuhálsi