Húsheild ehf í Mývatnssveit átti lægra tilboðið í byggingu gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Kirkjubæjarklaustri.
Tilboð Húsheildar hljóðaði upp á 639,8 milljónir króna og var 13,6% yfir kostnaðaráætlun Framkvæmdasýslu ríkisins, sem hljóðar upp á 563,1 milljónir króna.
Ístak hf bauð einnig í verkið og var tilboð félagsins upp á 793,2 milljónir króna.
Í opnunarskýrslu frá Ríkiskaupum segir að hún feli ekki í sér niðurstöðu útboðs, þar sem í henni sé einungis birt heildartilboðsfjárhæð en endanlegt val geti ráðist af fleiri valforsendum samkvæmt útboðsgögnum.
Gestastofan verður meginstarfsstöð Vatnajökulsþjóðgarðs á vestursvæði hans með aðstöðu fyrir upplýsingagjöf, sýningarhald, verslun, kaffihús, skrifstofu- og starfsmannaaðstöðu, geymslu og tæknirými í kjallara. Byggingin verður 620 m2 á einni hæð auk 145 m2 kjallara eða samtals 765 m2 að flatarmáli. Gert er ráð fyrir að byggingin verði tilbúin í lok árs 2022.