Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Hornafjarðar lýsir yfir áhyggjum vegna ástands umferðarmála í Öræfum og óskar eftir samtali við samgönguyfirvöld um málið.
Á fundi bæjarstjórnar í gær var samþykkt bókun vegna þessa en þar kemur fram að slysatíðni hafi aukist samhliða aukinni umferð og undanfarin ár hefur banaslysum á svæðinu fjölgað.
„Langt er í viðbragðaðila í Öræfum og er mikið álag á björgunarsveitina Kára og slökkvilið í Öræfum sem er byggt upp af sömu einstaklingum. Gestir í Skaftafell og Jökulsárlón voru um 800 og 850 þúsund á síðasta ári eða að meðaltali rúmlega 2000 gestir á dag. Meðalfjöldi bifreiða á síðasta ári við Lómagnúp var 1.344 á dag. Vegakerfið var ekki hannað fyrir þessa miklu umferð,“ segir í bókun bæjarstjórnar sem óskar eftir samtali við samgönguyfirvöld um málið og að unnið verði að áætlun um breikkun vega, frekari fækkun einbreiðra brúa með það að markmiði að efla umferðaröryggi.