Bæna- og samverustund í Víkurkirkju í kvöld

Ljósmynd/Sigurður Hjálmarsson

Bæna og kyrrðarstundir eru nú haldnar víða um land vegna áfalla sem hafa dunið á að undanförnu.

Í kvöld kl. 21:00 verður bæna- og samverustund í Víkurkirkju í Mýrdal vegna hvarfs Illes Benedek Incze. Mun stundin fara fram bæði á ensku og íslensku. Benedek hefur verið saknað síðan aðfaranótt mánudags og hefur leitin að honum ekki borið árangur. Benedek er frá Ungverjalandi en var búsettur í Vík og starfaði þar.

Sr. Jóhanna Magnúsdóttir, sem hefur nýhafið störf sem sóknarprestur í Vík í Mýrdal, mun leiða stundina. „Við komum saman, kveikjum á bænaljósi, hlustum á tónlist, biðjum saman og síðast en ekki síst: tölum saman,“ segir í tilkynningu frá Víkurprestakalli.

Í gær var samvera í Miðdalskirkju vegna banaslyss sem varð á Selfossi í byrjun vikunnar og í kvöld kl. 18 verður bæna- og kyrrðarstund í Dómkirkjunni í Reykjavík vegna áfalla í samfélaginu.

Fyrri greinLést í vinnuslysi á Selfossi
Næsta greinMeð blýantinn að vopni