Fyrsta skóflustungan að nýju íbúðarhverfi í Björkurstykki á Selfossi var tekin í dag.
Það var Tómas Ellert Tómasson, formaður eigna- og veitunefndar Árborgar, sem mundaði stýripinnana á gröfunni undir styrkri stjórn Þórarins Úlfarssonar hjá Gröfutækni á Flúðum sem mun sjá um jarðvinnuna í 1. áfanga Björkurstykkis.
„Þetta er ánægjulegur dagur, hér er að fara af stað gatnagerð í hverfi sem mun telja 650 íbúðir en í þessum fyrsta áfanga verða lóðir fyrir um 200 íbúðir,“ sagði Tómas Ellert í samtali við sunnlenska.is.
Í þessum hluta hverfisins er síðan gert ráð fyrir að rísi nýr grunnskóli, leikskóli og tónlistarskóli.
„Skólinn er ennþá í hönnun en fyrstu íbúðarhúsin munu rísa hér næsta vor. Ég reikna með að lóðir verði auglýstar um næstu helgi og ef eftirspurnin verður mikil þá þurfum við að byrja fljótlega á því að bjóða út næsta áfanga hverfisins,“ bætti Tómas Ellert við. „En þetta er gleðilegur áfangi og við erum að fara í rétta átt, bærinn er að vaxa suður, í sólarátt.“
Gröfutækni átti lægsta tilboðið í gatnagerð og lagnir, rúmlega 671,1 milljón króna. Verkið er áfangaskipt þar sem hluta af götum og botnlöngum skal skilað ómalbikuðu þann 15. mars næstkomandi en heildarverklok eru 1. júlí 2021.