Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, gefur kost á sér til embættis forseta Íslands.
Þetta tilkynnti Baldur á fundi sem stuðningsfólk hans og Felix Bergssonar, eiginmanns hans, boðuðu í Bæjarbíói í Hafnarfirði í dag. Baldur gerði í ræðu sinni skýra grein fyrir sýn sinni á forsetaembættið og tilkynnti svo stuðningsmönnum við mikin fögnuð viðstaddra, að hann gæfi kost á sér.
„Ef þið trúið því að sveitastrákurinn frá Hellu og bóndi hans eigi erindi á Bessastaði, þá biðjum við um ykkar stuðning,“ sagði Baldur í lok ræðu sinnar.
Baldur gerði í ræðu sinni málskotsrétt forseta að umfjöllunarefni. „Ef Alþingi fer af einhverjum orsökum fram úr sér og brýtur gegn samfélagssáttmálanum og þeim leikreglum sem við höfum haft í heiðri, þá verður forseti að vera tilbúinn að grípa inn og vísa málum beint til þjóðarinnar.“
Þá sagði einnig að forseti ætti að nýta dagskrárvald embættisins til fulls og forgangsraða þeim málum sem forseti beitir sér fyrir sérstaklega. Nefndi Baldur málefni barna og ungmenna og mannréttindi einstaklinga sem dæmi.
Baldur vék þá jafnframt að hlutverki forseta á erlendri grundu. Sagði hann að grunnstef í málflutningi forseta ætti alltaf að vera að tala fyrir friðsamlegri lausn deilumála, bæði heima á Íslandi sem og erlendis. Baldur sagði enn fremur að Íslendingar þyrftu að staldra við og huga að okkar sameiginlega menningararfi og fjölbreytta samfélagi. „Við viljum forseta sem talar þjóð sína upp, innan lands sem utan, en án drambs eða rembings.“
Baldur, sem varið hefur 30 árum af starfsævi sinni í að rannsaka hvernig smáþjóðir geta gætt að hagsmunum sínum og haft áhrif á alþjóðasviðinu, sagði að smáþjóðir eins og Ísland, þyrftu að byrja á því að vinna heimavinnuna sína. „Við eigum að byrja á því að ná árangri hér heima fyrir, til dæmis í málefnum barna og ungmenna, og með því að styrkja stöðu kvenna enn frekar,“ sagði Baldur. „Slíkur árangur skapar okkur virðingu og sess í alþjóðasamfélaginu og verður til þess að á okkur er hlustað.“
„Við smíðum kannski ekki ísbrjóta eins og stórþjóðirnar sem kljúfa ísbreiðurnar fyrir norðan okkur, en ef við höfum kjark og þor og vilja til að láta til okkur taka, og ef við vinnum heimavinnuna okkar vel og vandlega, þá gætum við orðið ísbrjótur bæði hér heima og að heiman,“ sagði hann.
Ræðuna Baldurs má nálgast í heild sinni á hlekknum hér að neðan:
Baldur fæddist á Selfossi þann 25. janúar 1968 og ólst upp á bænum Ægissíðu á bökkum Ytri-Rangá. Hann lauk grunnskóla á Hellu og stúdentsprófi frá Menntaskólanum að Laugarvatni árið 1988. Árið 1991 útskrifaðist hann með BA-gráðu úr stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Í kjölfarið hélt hann út í nám við Háskólann í Essex í Englandi þar sem hann útskrifaðist með MA-gráðu í stjórnmálum Vestur-Evrópu árið 1994. Árið 1999 lauk hann doktorsgáðu í stjórnmálafræði frá Háskólanum í Essex.