Vindstyrkurinn við Steina undir Eyjafjöllum mælist nú 35 metrar á sekúndu í verstu hviðunum.
Það er bálhvasst en til samanburðar mælist stormur við 20 metra á sekúndu. Lögreglan á Hvolsvelli hvetur fólk til að vera ekki á ferð að nauðsynjalausu. Fjúkandi möl geti skemmt bíla. Ökumenn eru hvattir til að fylgjast vel með veðurspá og á vef Vegagerðarinnar má nálgast ítarlegar upplýsingar af sjálfvirkum mælum víðsvegar um svæðið.
Hvasst er með suðurströndinni og skafrenningur á Hellisheiði og Sandskeiði. Gert er ráð fyrir að dragi úr vindi í kvöld. Búast má áfram við austan strekkingi á Suðurlandi í kvöld, 8-13 m á sekúndu. Spáð er rigningu eða slyddu syðst og hugsanlega fellur einhver úrkoma á suðvesturhorninu, samkvæmt upplýsingum Veðurstofu Íslands.