Banaslys á Breiðamerkurjökli – Leit frestað til morguns

Viðbragðsaðilar á Suðurlandi hafa í dag og í kvöld leitað að tveimur aðilum sem talið er að hafi orðið undir ís fyrr í dag þegar hrun varð úr íshelli á Breiðamerkurjökli.

Greint var frá því fyrr í kvöld að tveir aðilar sem urðu fyrir íshruninu hefðu slasast alvarlega. Annar þeirra var úrskurðaður látinn á vettvangi en hinn var fluttur með þyrlu LHG á Landspítalann og er líðan hans stöðug.

Um var að ræða 25 manna hóp erlendra ferðamanna af nokkrum þjóðernum sem voru í íshellaskoðun þegar slysið varð. Mikill fjöldi björgunarfólks og viðbragðsaðila hefur tekið þátt í aðgerðinni.

Aðstæður við leitina eru erfiðar og myrkur er nú skollið á. Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi segir að ekki sé talið forsvaranlegt, vegna hættu á vettvangi, að halda leit áfram í nótt. Leit hefur því verið frestað og verður henni fram haldið að nýju í birtingu í fyrramálið.

Lögreglan á Suðurlandi vinnur að rannsókn á slysinu.

Fyrri greinMarkalaust í Höfninni
Næsta greinTala eingöngu um vextina