Erlendur ferðamaður á sjötugsaldri lést í árekstri fólksbíls og sendibíls á Mýrdalssandi, vestan við Kúðafljót á fjórða tímanum í dag.
Maðurinn var ökumaður bílsins og var hann úrskurðaður látinn á vettvangi. Farþegi í bílnum, eiginkona hins látna, var flutt alvarlega slösuð með sjúkrabíl til móts við þyrlu Landhelgisgæslunnar og síðan áfram á sjúkrahús í Reykjavík.
Ökumaður sendibílsins var einn á ferð og reyndust meiðsli hans minniháttar.
Lögreglan á Suðurlandi rannsakar tildrög slyssins en bifreiðunum var ekið úr gagnstæðum áttum. Lögreglan mun ekki gefa upplýsingar um einstaka þætti rannsóknarinnar fyrr en að henni lokinni.