Banaslys í Lambafelli

Kl. 7:02 í morgun barst Neyðarlínunni tilkynning um slys í malarnámu í suðaustanverðu Lambafelli við Þrengslaveg í Ölfusi.

Jarðýta, sem verið var að nota við að losa efni og ýta fram af fjallsbrúninni, hafði farið fram af brúninni og ofan í námuna. Stjórnandi vélarinnar, íslenskur karlmaður á sextugsaldri, fannst skammt frá vélinni og reyndist látinn þegar að var komið.

Slysið er talið hafa átt sér stað einhvern tímann á tímabilinu frá kl. 23:00 í gærkvöldi og fram til morguns. Tildrög þess eru til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurlandi og þeir vegfarendur sem óku um Þrengslaveg í nótt og hafa séð til vélarinnar við vinnu og geta upplýst um tímasetningar eru beðnir um að hafa samband við lögreglu í síma 444 2000, í tölvupósti á sudurland@logreglan.is eða á Facebooksíðu lögreglunnar á Suðurlandi.

Lögreglan mun ekki veita frekari upplýsingar um rannsóknina að sinni.

Fyrri greinGul viðvörun – Austan stormur
Næsta greinAlls 35 sunnlensk fyrirtæki á lista yfir framúrskarandi fyrirtæki