Konan sem féll í sjóinn við Kirkjufjöru í hádeginu í dag er látin. Hún var þýsk og á ferð hér á landi með eiginmanni sínum og tveimur börnum.
Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-GNA, fann konuna vestast í Reynisfjöru um klukkan 13:45. Þyrlunni var lent í fjörunni og þar var konan tekin um borð og hófust tilraunir til endurlífgunar þegar í stað. Þyrlan lenti svo við Landspítalann í Fossvogi klukkan 14:45 og var konan úrskurðuð látin skömmu eftir komu þangað. Ekki er unnt að birta nafn hennar að svo stöddu.
Rannsókn á tildrögum slyssins er í höndum lögreglunnar á Suðurlandi. Mikið brim hefur verið með ströndinni á þessum slóðum nú og er lögreglu kunnugt um að í Reynisfjöru hafa allmargir a.m.k. vöknað í fæturna í dag. Af því tilefni ákváðu björgunarsveitarmenn sem komnir voru á vettvang slyssins að standa vakt í Reynisfjöru til myrkurs til að leiðbeina fólki um hættur þær sem fylgja briminu.