Laust fyrir klukkan átta í gærkvöldi varð banaslys á Þjóðvegi 1 skammt austan við Vík í Mýrdal við svokallaðan Kötlugarð.
Þrír voru í bifreið sem fór nokkrar veltur og var ökumaðurinn fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar á slysadeild. Hann var úrskurðaður látinn í nótt. Tveir farþegar voru í bifreiðinni sem slösuðust minna, en voru fluttir með sjúkrabifreiðum á slysadeild í Reykjavík.
Í tilkynningu frá Lögreglunni á Suðurlandi segir að svo virðist sem allir hafi verið í öryggisbelti þegar slysið varð.
Tildrög slyssins eru ókunn og eru til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurlandi, ásamt tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem einnig kom á vettvang.
Mikill viðbúnaður var á vettvangi vegna slyssins frá lögreglu, slökkviliði í Vík, sjúkraflutningum á Suðurlandi og Landhelgisgæslunni.
Það sem af er ári hafa fjóri einstaklingar látið lífið í þremur umferðarslysum í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi.