Nýverið heimsóttu bandarísku sendiherrahjónin, Mary og Luis E. Arreaga, vinafólk sitt í Norðurkoti á Eyarbakka og notuðu daginn vel til þess að skoða sig um á Bakkanum.
Lýður Pálsson, safnstjóri Byggðasafns Árnesinga, sýndi þeim Húsið, Sjóminjasafnið og Eyrarbakkakirkju. Þau gáfu sér góðan tíma til að kynna sér merkilega sögu Eyrarbakka og fólksins sem þar hefur búið í gegnum tíðina.
Auk þess litu þau við hjá Siggeiri Ingólfssyni í upplýsingamiðstöðinni sem hann starfrækir á Stað en hann fræddi þau um mannlífið fyrr og nú. Þá heimsóttu þau Gallerí Regínu og nutu þess að skoða handunnar gjafavörur sem Regína Guðjónsdóttir hannar.
Loks var farið á sjógarðinn og í fjöruna til að virða fyrir sé tignarlegt brimið þann daginn.
„Við áttum dýrðlegan dag á Eyrarbakka. Það er ekki oft sem við fáum svona dýrmætt tækifæri til að kynnast sögunni og mannlífinu í fámennu íslensku þorpi,“ sagði sendiherrann um heimsóknina.