Lýðheilsufélag læknanema ætlar að halda Bangsaspítala á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi á morgun, laugardaginn 5. nóvember frá kl. 13-17.
Bangsaspítalinn er opinn öllum börnum á aldrinum 3-6 ára og verður tekið á móti böngsunum við aðalinngang HSu.
Markmið Bangsaspítalans er að stuðla að jákvæðu viðhorfi barna og trausti gagnvart heilbrigðisstarfsfólki, heilbrigðisstofnunum og því starfi sem þar fer fram. Hugmyndin er sú að barn, í hlutverki foreldris, komi með veikan bangsa eða dúkku til læknis. Hjá lækninum fer fram viðtal og skoðun og er bangsinn læknaður eftir því sem við á, settar sáraumbúðir, plástrar og þess háttar.
Bangsaspítalinn hefur verið starfræktur um nokkuð skeið og nýtur sífellt meiri vinsælda, bæði hjá yngri kynslóðinni og þeim eldri.
„Það mættu um 300 bangsar á Barnaspítalann um síðustu helgi og voru þeir með hina ýmsu áverka. Sumir voru með barn í maganum, aðrir duttu úr rúminu og svo hafði einn bangsinn orðið fyrir árás frá Spiderman,“ sagði Guðrún Katrín Oddsdóttir, læknanemi, í samtali við sunnlenska.is.
„Það er ótrúlega gaman að þessu og mörg skemmtileg atvik sem koma upp. Bangsaspítalinn sannaði t.d. gildi sitt þegar einn ungur fór að gráta við að sjá hvítu sloppana en málið breyttist heldur betur þegar læknirinn vippaði sér úr sloppnum og læknaði bangsann. Þannig kennum við krökkunum líka að það er ekkert að óttast og við hlökkum til að hitta sunnlenska bangsa í fyrsta sinn,“ sagði Guðrún Katrín að lokum.
Kátir krakkar á bangsaspítalanum á Barnaspítalanum um síðustu helgi. sunnlenska.is/Guðrún Katrín Oddsdóttir