Ákveðið hefur verið að hafa áfram lokað fyrir umferð um veg 221 að Sólheimajökli fram til mánudagsins 3. október. Auk þess sem óheimilt er að ganga á jökulinn.
Metnar verða aðstæður á ný strax eftir helgi.
Lögreglan á Suðurlandi mælist til þess að ekki sé dvalið á víðavangi yfir nóttu allt frá Skógum að Dyrhólavegi og frá útjaðri Víkurþorps í austri að Kúðafljóti. Er þetta gert til að auðvelda viðbragðsaðilum ef til rýmingar kæmi. Um er að ræða svæðið sem er rauðmerkt á myndinni.
Rólegt hefur verið á jarðskjálftavaktinni á jarðvársviði Veðurstofu Íslands í nótt og aðeins nokkrir smáskjálftar verið á Kötlusvæðinu.