Bæjarstjórn Árborgar samþykkti við fyrri umræðu á bæjarstjórnarfundi í vikunni að breyta lögreglusamþykkt Árborgar svo að ekki verði leyfilegt að gista í tjöldum eða ferðavögnum á almannafæri í sveitarfélaginu.
Samkvæmt því verður bannað að gista í tjöldum, húsbílum, fellihýsum, hjólhýsum, tjaldvögnum eða öðrum sambærilegum búnaði á almannafæri innan marka sveitarfélagsins, utan sérmerktra svæða. Í eldri málsgrein samþykktarinnar var einungis talað um tjöld, húsbíla, fellihýsi, hjólhýsi og tjaldvagna.
Í greinargerð með tillögunni kemur fram að unnið sé að gerð merkinga sem sýna að óheimilt sé að tjalda utan tjaldsvæða og jafnframt leiðbeint um hvar heimilt sé að gista.
Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að vísa tillögunni til síðari umræðu.
Færst hefur í vöxt að húsbílum og öðrum ferðabílum sé lagt næturlangt hér og þar í sveitarfélaginu. Magnús Hlynur Hreiðarsson, fjölmiðlamaður, benti meðal annars á það á Facebooksíðu sinni að planið við Selfosskirkju sé vinsæll næturstaður húsbíla.
Séra Axel Árnason Njarðvík skrifar skemmtilegt svar við færslu Magnúsar og segir frá því að einn sunnudagsmorguninn hafi hann gengið til Spánverja flokks á svona bílum og sagt þeim hempuklæddur að til þess að tryggja för þeirra um landið gengi áfallalaust þyrftu þeir að greiða fyrir nóttina og hvíldina, því annars færu bílarnir að bila. „Það var eins og við manninn mælt að þegar messan var að byrja komu nokkrir rauðir seðlar og bunki af límmiðum hópsins í kirkjubaukinn. Baukurinn varð glaður og fólkið fór á vit hins ánægjulega. Enginn skammaður og enginn leiður né pirraður,“ segir séra Axel.