Sveitarstjórn Skaftárhrepps samþykkti á fundi sínum síðastliðinn laugardag að heimila ekki heimagistingu í íbúðarhúsnæði nema að undangenginni grenndarkynningu.
Samþykkt var að bæta tveimur skilmálum við í greinargerð aðalskipulags sveitarfélagsins.
Samkvæmt nýju skilmálunum verður útleiga íbúðarhúsnæðis til íbúðargistingar óheimil innan þéttbýlis á Kirkjubæjarklaustri. Heimagisting verður heimiluð, en verði að hámarki tíu gistirými. Sýna verður fram á að næg bílastæði verði við húsið, það rækilega merkt og að starfsemin muni ekki hafa truflandi áhrif á íbúðabyggð.
Í samtali við RÚV segir Eva Björk Harðardóttir, oddviti, að íbúðarhúsnæði á Kirkjubæjarklaustri sé af mjög skornum skammti og það hái atvinnuuppbyggingu á svæðinu.
„Þannig að við ætlum að grípa til þessara ráðstafana, áður en við lendum í vandræðum með íbúðarhúsnæði. Við þurfum að byggja íbúðarhúsnæði. Við megum ekki við að missa það í atvinnustarfsemi sem er ekki hugsuð á þessum svæðum.“
Fyrr í mánuðinum gerði sveitarstjórn Mýrdalshrepps samþykkt sem jafngildir banni við skammtímaleigu íbúða í Vík í Mýrdal og nágrenni.