Af gefnu tilefni hefur lögreglustjórinn á Suðurlandi ákveðið að banna köfun í Ölfusvatnsvík frá og með deginum í dag og þar til búið er að ná flaki flugvélarinnar TF-ABB á land og tryggja þau gögn sem þar er að finna.
„Fyrir liggur að lögreglu er skylt að rannsaka slys og í þessu tilfelli hvíla ríkar skyldur einnig á Rannsóknarnefnd samgönguslysa um rannsókn. Bannið er sett til að tryggja að mikilvægum sönnunargögnum verði ekki raskað. Ákvörðun þessi jafngildir því að hald hafi verið lagt á flugvélarflakið á botni Þingvallavatns,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi.
Aðstæður við vatnið voru skoðaðar í dag og eins og sést á meðfylgjandi mynd er vatnið nú ísi lagt og ekki að vænta að það opnist á næstunni.
„Ekki eru fyrirliggjandi upplýsingar um að óviðkomandi hafi reynt að kafa að flugvélarflakinu en hins vegar er vitneskja um umræðu um slíkt meðal einhverra sem mögulega hafa hvorki þekkingu, búnað eða reynslu til að fást við köfun við jafn krefjandi aðstæður á því dýpi sem hér um ræðir,“ segir ennfremur í tilkynningu lögreglunnar.