Hægt er að fylgjast með Bárðarbungu í gegnum vefmyndavél sem sett var upp í gær á Grímsfjalli í Vatnajökli.
Að því er fram kemur á vef Ríkisútvarpsins var vélin sett upp í ferð vísindamanna með Landhelgisgæslunni í gær, en við sama tækifæri var komið fyrir nýjum jarðskjálftamæli á Bárðarbungu.
Björn Oddsson, verkefnastjóri hjá Almannavarnardeild setti vélina upp, en hún er samstarfsverkefni Almannavarna, Jöklarannsóknarfélagsins, Neyðarlínunnar og fyrirtækisins M&T. Grímsvötn eru í um þrjátíu kílómetra fjarlægð frá Bárðarbungu.
Ekkert lát er á skjálftahrinunni sem nú stendur yfir nálægt Bárðarbungu. Mesta virknin hefur verið norður og austur af öskjunni sjálfri, þar sem kvika hefur verið að brjóta sér leið undir yfirborðinu. Engin merki eru enn um að gos sé hafið. Verði gos undir jöklinum, er talið líklegast að jökulflóð af völdum þess fari niður farveg Jökulsár á Fjöllum.
Fylgjast má hér með vefmyndavélinni á Grímsfjalli.