Barn veiktist eftir að hafa borðað kannabis-hlaupbangsa

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Lögreglan á Suðurlandi hefur nú til rannsóknar mál sem kom upp fyrr í mánuðinum, þar sem barn innbyrti í gáleysi sælgæti sem innihélt ólögleg fíkniefni. Að sögn Odds Árnasonar, yfirlögregluþjóns, koma svona mál því miður upp annað slagið hér á landi og eru þau litin mjög alvarlegum augum.

Barnið var flutt á heilbrigðisstofnun og segir Oddur ekki vitað annað en að það muni ná sér að fullu. Samkvæmt heimildum sunnlenska.is varð barnið fyrir alvarlegri kannabiseitrun.

„Einhverra hluta vegna er efnum komið fyrir í hlaupfígúrum, dulbúið sem sælgæti sem oftast er markaðsett fyrir börn. Rannsókn málsins beinist meðal annars að því að kanna hvort um einangrað tilvik á svæðinu sé að ræða,“ sagði Oddur í samtali við sunnlenska.is en lögreglan mun ekki gefa nánari upplýsingar um rannsóknina á þessu stigi málsins.

Lögreglan á Suðurlandi hvetur fólk til að vera á varðbergi gagnvart slíkum ófögnuði og ef að fólk hefur upplýsingar um mál af þessu tagi er það beðið um að hafa samband við lögreglu, og Oddur tekur fram að slíkar upplýsingar eru meðhöndlaðar sem trúnaðarmál.

Fyrri greinGasmengun við upptök Múlakvíslar
Næsta greinVarnargarður rofnaði við Markarfljót