Tvö börn hafa komið í heiminn á Höfn í Hornafirði síðustu vikuna og þykir það heldur betur saga til næsta bæjar.
Árið 2013 lögðust fæðingar á Höfn af, eftir að ljósmóðirin þar hætti störfum. Ekki fékkst önnur ljósmóðir á staðinn og var þjónustan því lögð niður. Auðbjörg Brynja Bjarnadóttir, ljósmóðir á Kirkjubæjarklausti, hefur síðustu ár, komið reglulega á Höfn og sinnt mæðraeftirliti.
Verðandi mæður fara svo úr sveitarfélaginu þegar þær eru komnar um 38 vikur á leið, fara þá nær fæðingarstað og geta þurft að bíða þar í allt að fjórar vikur.
„Síðan 2013 hefur eitt og eitt barn verið að flýta sér í heiminn og barnið hefur þá fæðist hér á Hornafirði. Eitt barn var svo tillitssamt að það nýtti sér tækifærið að koma í heiminn, þegar ljósmóðirin var hér veðurteppt en hefði sjálfsagt annars ekki gert það,“ segir Elín Freyja Hauksdóttir, yfirlæknir á HSU Hornafirði.
„Síðasta vika hefur verið meira en lítið sérstök því það hefur ekki bara eitt barn fæðst hér á Höfn, heldur tvö. Falleg stúlka kom í heiminn þann 2. júní og svo kom flottur drengur núna í nótt, þann 8. júní,“ segir Elín Freyja ennfremur og bætir við að báðum börnum og foreldrum farnist vel.