Bátaskýli við Þingvallavatn brann

Gamalt bátaskýli í Hestvík við Þingvallavatn varð eldi að bráð í kvöld.

Eigandi skýlisins hafði innréttað sauna-klefa í því og er talið líklegt að eldurinn hafi kviknað út frá ofni í klefanum. Eigandinn kynti upp í gufubaðinu síðdegis í dag en um kl. 19 varð hann var við eld í skýlinu sem var mannlaust.

Eigandanum láðist hins vegar að tilkynna Neyðarlínunni um eldinn en það gerði nágranni hans sem varð var við mikið bál rúmum einum og hálfum tíma síðar.

Þar sem ekki var vitað hvort um sumarhús væri að ræða var allt tiltækt lögreglu, sjúkra- og slökkvilið kallað á vettvang. Hersingunni var fljótlega snúið við þegar ljóst var hvernig í pottinn var búið en varðstjóri slökkviliðsins fór á vettvang ásamt lögreglu.

Bátaskýlið var þá brunnið til kaldra kola en ljóst er að slökkviliðið hefði átt erfitt með að athafna sig þar sem töluverð vegalengd er frá veginum niður bratta hlíð að vatninu.

Fyrri greinSelfyssingar fastir á botninum
Næsta greinFólksbíll eyðilagðist í eldi