Sveitarfélagið Árborg hefur náð góðum árangri í rekstri samkvæmt nýbirtu árshlutauppgjöri fyrir fyrstu sex mánuði ársins.
Uppgjörið sýnir jákvæða þróun og framfarir í fjármálum sveitarfélagsins, en í tilkynningu frá Árborg segir að áhersla sé lögð á að slaka ekki á klónni þrátt fyrir jákvæðar fréttir.
Samkvæmt uppgjörinu hefur tekist að bæta rekstrarstöðu sveitarfélagsins, sem hefur skilað sér í betri fjárhagslegri stöðu og auknum stöðugleika. Það er mikilvægur áfangi að afkoma A- og B-hluta í sex mánaða uppgjörinu sé jákvæð um 1.305 milljónir króna, en vert er að taka fram að sala á landi í eigu Árborgar skilaði einskiptistekjum upp á 1.200 milljónir króna. Staða efnahagsmála hefur styrkst og það hefur tekist að draga úr skuldsetningu sveitarfélagsins, sem er mikilvægt skref í átt að sjálfbærum rekstri.
Bragi Bjarnason, bæjarstjóri Árborgar, fagnar þessum árangri en leggur áherslu á að ekki sé ástæða til að slaka á.
„Þrátt fyrir góðan árangur er mikilvægt að halda áfram á þessari braut og tryggja sjálfbæran rekstur til framtíðar,“ segir Bragi. Framundan séu áframhaldandi áskoranir, en sveitarfélagið sé staðráðið í að nýta þennan árangur sem grunn til frekari uppbyggingar og þjónustu við íbúa.