Vígsla fór fram á nýjum björgunarbát Björgunarsveitarinnar Bjargar á Eyrarbakka sl. laugardag.
Sveitin hefur unnið að því hörðum höndum að safna peningum fyrir kaupum á þessum öfluga bát sem er af gerðinn Atlantic 75 og kemur frá breska sjóbjörgunarfélaginu RNLI á Hayling eyju. Með tilkomu bátsins er nú búið að þétta net sjóbjörgunarbáta á Suðurlandi svo að sómi er að.
Báturinn er 7,5 m á lengd, 2,64 á breidd búinn tveimur 75hp mótorum og gengur 32 mílur við bestu aðstæður.
Guðjón Guðmundsson, formaður sveitarinnar, segir að báturinn reynist gríðarlega vel og vel hafi gengið að þjálfa mannskapinn. Kostnaður við kaupin er um 6 milljónir króna og Guðjón segir að frábær stuðningur einstaklinga og fyrirtækja hafi gert kaupin möguleg.
Sr. Sveinn Valgeirsson blessaði bátinn sem fékk nafnið Gaui Páls í höfðuði á Guðjóni Pálssyni sem var formaður sveitarinn í 16 ár. Núverandi formaður sem á svipað langan ferli að baki gengur einnig undir nafninu Gaui og þótti nafnið varla geta passað betur.
Að athöfninni lokinni bauð sveitin gestum í kaffi.