Beið björgunar ómeiddur á 20-30 metra dýpi

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar hafa náð upp erlenda ferðamanninum sem féll í gjótu á Þingvöllum fyrr í dag. Hann er heill á húfi sem þykir ótrúlegt þar sem hann rann langt ofaní sprunguna.

Maðurinn var á gangi þegar snjóbrú sem var yfir gjánni gaf sig og maðurinn féll ofan í gjótuna og hvarf sjónum samferðafólks síns.

Björgunarsveitir frá Selfossi, Hveragerði og Mosfellsbæ voru kallaðar út kl. 13:59. Björgunarmaður seig eftir manninum ofan í sprunguna þar sem hann var búinn að koma sér fyrir á syllu og beið björgunar, á 20-30 m dýpi. Hann var svo hífður upp á brún.

Um 25 björgunarsveitamenn tóku þátt í aðgerðinni sem lauk rétt fyrir klukkan hálf fjögur.

UPPFÆRT KL. 15:55

Fyrri greinVeruleg aukning í málafjölda hjá rannsóknardeildinni
Næsta greinBlóðbankabíllinn á Selfossi í dag