Í morgun voru björgunarsveitir frá Hellu og Hvolsvelli kallaðar út vegna ökumanns sem var í vandræðum í Kaldaklofskvísl við Hvanngil á Fjallabaksleið syðri.
Hafði hann fest bíl sinn í ánni og þurft að koma sér upp á þak því vatn flæddi inn í bílinn. Var maðurinn búinn að vera á þaki bílsins í um tvær klukkustundir þegar björgunarmenn komu að. Vel tókst að koma manninum í land en unnið er að því að koma bílnum úr ánni. Var hann farinn að grafast niður og mátti því ekki tæpara standa að bjarga manninum, að því er fram kemur í tilkynningu frá Landsbjörgu.
Landsbjörg vill koma þeim skilaboðum til ferðalanga að vegna rigninga hefur vaxið mikið í ám á hálendinu og eru margar þeirra því illfærar og jafnvel ófærar óbreyttum jeppum.