Ökumaður fólksbifreiðar var fluttur á slysadeild í Reykjavík eftir að hann missti stjórn á bíl sínum á Hvammsvegi í Ölfusi eftir hádegi í dag og hafnaði úti í skurði.
Neyðarlínan fékk tilkynningu um slysið kl. 13:06 og fóru lögregla og sjúkralið frá Selfossi á vettvang ásamt tækjabíl frá slökkviliði Brunavarna Árnessýslu í Hveragerði.
Tildrög slyssins eru ekki ljós en bíllinn var á leið norður Hvammsveg við Efstaland þegar ökumaður missti stjórn á honum. Bíllinn fór útaf veginum og hafnaði harkalega utan í skurðbakka áður en hann stöðvaðist á hjólunum ofan í skurðinum.
Kona sem ók bílnum var ein á ferð og þurftu slökkviliðsmenn að beita klippum til þess að hægt væri að ná henni út úr bílnum. Meiðsli hennar eru þó ekki talin alvarleg.