Á síðasta fundi sveitarstjórnar Hrunamannahrepps var tekið fyrir endindi frá samgöngunefnd SASS en í því var óskað eftir ábendingum um brýn verkefni á sviði samgangna í sveitarfélaginu.
Erindinu var vísað til umhverfisnefndar Hrunamannahrepps sem tók það fyrir og í framhaldinu bókaði sveitarstjórn um málið.
Í tillögum umhverfisnefndar kemur fram að mikilvægt sé að fá tveggja akreina brú yfir Brúarhlöð þar sem umferð hefur aukist mjög að undanförnu og mun væntanlega aukas enn frekar í framtíðinni. Þá þarf einnig að huga að uppbyggingu vegarins um Kirkjuskarð, sem er í slæmu ásigkomulagi og sömuleiðis að byggja upp og klæða Auðsholtsveginn. Hann verður fyrir ágangi vatns þegar flóð verða í ám á svæðinu og lokast hann því oft af þeim ástæðum.
Sveitarstjórn vill einnig ítreka nauðsyn þess að vegurinn inn að Hrunalaug verði bættur en gestakomum þangað fer sífellt fjölgandi með bættri og aukinni aðstöðu og uppbyggingu á svæðinu.