Fyrr í vikunni var opnaður svokallaður berfótagarður á Lífræna markaðnum á Engi í Laugarási í Biskupstungum.
„Þetta er nýstárlega hannaður gangstígur nærri völundarhúsinu sem margir þekkja. Gangstígurinn liggur inn á milli hárra trjáa og lægri runnagróðurs og á efalaust eftir að vekja forvitni þeirra sem heimsækja Engi,“ segir Sigrún Elfa Reynisdóttir sem rekur Lífræna markaðinn á Engi ásamt eiginmanni sínum, Ingólfi Guðnasyni.
„Gestir taka af sér skó og sokka og feta sig eftir gangstíg sem er þakinn ólíkum náttúrulegum efnum eins og sandi, steinvölum, furukönglum, ilmandi jurtum og fleira. Hugmyndin með berfótagarðinum er að gefa gestum kost á að finna fyrir ólíkum áferðum efnis á óvenjulegan hátt,“ segir Sigrún.
Sigrún segir að gönguferðin örvi ólík skilningarvit svo sem snertingu, lykt og hljóð. „Ákveðin dulúð og ef til vill hugleiðsluástand umlykur þess háttar upplifun, sem tæpast er hægt að finna í svo fjölbreyttu mæli annars staðar. Algengast er að í dagsins önn gangi fólk aðallega á steinsteypu og malbiki en við þessar kringumstæður fær gesturinn að finna fjölbreytt ástand náttúrulegs efnis á áþreifanlegan hátt.“
„Berfætt finnur maður miklu betur fyrir ólíkri áferð náttúrulegs efnis og kemst betur í nánd við hið náttúruleg ástand hlutanna. Ef til vill nálgumst við skynjun forfeðra okkar sem spígsporuðu um á þunnum sauðskinnsskóm til flestra verka áður fyrr. Þetta er góð skemmtun fyrir börn og fullorðna og upplifun sem er óvíða að finna,“ segir Sigrún.
Aðspurð hvernig það hafi komið til að þau ákváðu að opna berfótagarð segir Sigrún að slíkir garðar og gangstígar séu ekki óþekktir í nágrannalöndum okkar. „Berfótagarðarnir eru af sumum notaðir til að auka tengsl við náttúruna og við hugleiðslu hafa þeir verið notaðir líkt og völundarhúsin.“
Að sögn Sigrúnar er hugmyndin nokkurra ára gömul en þau hjónin hrintu henni í framkvæmd nú í sumar. „Við eigum enn eftir að bæta við nokkrum gerðum undirlags og stígurinn verður í sífelldri þróun,“ segir Sigrún.
„Berfóta-gangstígurinn er opinn öllum á opnunartíma markaðsins. Við vonum að fólki eigi eftir að líka vel við þessa nýbreytni í þjónustu við gesti sem heimsækja lífræna markaðinn á Engi í sumar,“ segir Sigrún að lokum.