Byggðarsamlag Bergrisans og Sólheimar í Grímsnesi hafa gert með sér nýjan samning um þjónustu sem veitt er fötluðum íbúum á Sólheimum. Samningurinn var undirritaður s.l. föstudag af Gísla Halldóri Halldórssyni bæjarstjóra Árborgar og Sigurjóni Erni Þórssyni formanni stjórnar Sólheima.
Samningurinn er til fimm ára og byggir á lögum um stuðning við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Sólheimar hefur annast þjónustu við fatlað fólk frá árinu 1930 og hefur ætíð byggt á þeirri hugmyndafræði að auka sem mest lífsgæði hvers einstaklings og að hver og einn komi að ákvörðunum um eigin mál.
Sólheimar leggja áhersla á myndun samfélags fatlaðs fólks og ófatlaðs, án aðgreiningar, þar sem hinir síðarnefndu laga sig að þörfum þeirra fyrrnefndu.
Samstarf sveitarfélaga á Suðurlandi og Sólheima um þjónustu við fatlaða einstaklinga sem eru búsettir á Sólheimum hefur staðið allt frá því að sveitarfélögum var falin umsjá með málefnum fatlaðs fólks. Í tilkynningu frá Bergrisanum og Sólheimum segir að samstarfið hafi gengið vel og ánægja ríki meðal samningsaðila með nýja þjónustusamninginn.