„Við munum auðvitað berjast harðlega gegn því að það verði flutt störf af landsbyggðinni til Reykjavíkur, en að öðru leyti lítum við fremur á þetta sem tækifæri frekar en ógnun,“ segir Sveinn Runólfsson, landgræðslustjóri um hugmyndir hagræðingarhóps Alþingis um sameiningu Landgræðslunnar og Skógræktar ríkisins.
Sveinn segir sjálfsagt að skoða kosti hagræðingar sem þessarar. „Það er hinsvegar fráleitt að það felist í því einhver peningaleg hagræðing, því þessar hlutaðeigandi stofnanir hafa verið svo fjársveltar nú um árabil að það er ekki af neinu að taka,“ bætir hann við.
Sveinn segir vissulega rétt að rætt hafi verið um sameiningu þessara stofnana fyrr. „Eftir því sem manni skilst hefur þetta verið rætt í 50 ár. Það hafa komið fram allsskonar hugmyndir um þá sameiningu, en hingað til hefur skort pólitískan vilja til að gera það,“ segir Sveinn.
Gallar og kostir
Hann segir mögulega hægt að fá fram ýmis samlegðaráhrif í stofnunum á landsbyggðinni, í tengslum við ráðuneytin. „Það verður ekkert af því að flytja rannsóknarstarf af landsbyggðingin til höfuðborgarsvæðisins, það getur varla verið,“ segir Sveinn og vísar þá til þess að í tillögum nefndarinnar hefur verið nefnt að ýmist rannsóknarstarf verði fært til háskólanna. Það felast í þessu gallar og kostir, það er ekki spurning,“ segir Sveinn.
Hjá Landgræðslunni eru nú liðlega 50 ársverk, en þau voru að sögn Sveins um 65 fyrir um sex árum síðan.