Næstkomandi laugardagskvöld kjósa landsmenn framlag sitt í Eurovision, sem fer fram í Basel í Sviss þann 17. maí.
Meðal þeirra sex laga sem keppa til úrslita er lagið Set Me Free sem er sungið af Stebba JAK. Höfundur lagsins er Alda B. Lilliendahl Ólafsdóttir sem býr neðst á Skeiðunum og rekur auk þess verslun á Selfossi.
Lagið hennar Öldu er ekki eina sunnlenska afkvæmið í Söngvakeppninni en lagið Fire er sungið og samið af Júlí Heiðari Halldórssyni frá Þorlákshöfn.
„Þetta er bara mjög gaman og spennandi að vera með. Ég er mjög stolt af þessu lagi og fékk besta söngvarann á landinu að mínu mati fyrir þetta lag, þetta er eins og sniðið fyrir hann,“ segir Alda í samtali við sunnlenska.is.
„Ég fer og berst fyrir hönd Suðurlands með miklu stolti. Eins og margir vita þá eigum ég og maðurinn minn búðina Made In Ísland á Austurvegi 44 á Selfossi og svo búum við bæði í Flóahreppi og Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Það er einfaldlega vegna þess að við eigum þrjá ketti sem geta ekki búið saman, svo við búum á báðum stöðum og skoppum á milli,“ segir Alda og hlær.

Frelsi getur verið svo margt
Alda segir að texti lagsins sé túlkunaratriði hvers og eins. „Textinn snýst einfaldlega um það sem hlustandanum finnst þetta þýða, það er ekkert rangt, bara rétt. Ég held að við flest höfum verið í þeirri aðstöðu að þrá einhvers konar frelsi, það getur verið svo margt.“
Lagið samdi Alda á COVID tímanum þegar allir voru í útgöngubanni. „En hins vegar eru þetta skilaboð sem fólk má tengja hvernig sem það vill. Mikið af fólki hefur verið í allskonar mismunandi aðstæðum þar sem þau vilja frelsi svo lagið er bara opið til túlkunar fyrir hvern og einn.“
Meðhöfundar Öldu að laginu eru þau Will Taylor og Stebbi JAK. Enska textann samdi Alda ásamt Michael James Down, Primoz Poglajen og Stebba JAK.

Stebbi brillerar í laginu
Alda gerði mikið af því að syngja á árum áður en hún afrekaði það meðal annars að koma lagi í 7. sæti breska vinsældarlistans árið 1998. Alda segir að það hafi vel komið til greina að syngja Set Me Free sjálf en lagið sé aftur á móti eins og sniðið fyrir Stebba.
„Ég söng þetta sjálf til að byrja með en þetta lag hefði alveg getað verið samið fyrir hann, því hann gjörsamlega brillerar í þessu. It was meant to be eins og maður segir á góðri útlensku.“
Á stuðningsríkan eiginmann
„Nú er mikið af fólki að spyrja mig hvernig gengur að blanda saman búðarrekstri og Söngvakeppninni og mitt svar er að gengur bara fáránlega vel en það er bara vegna þess að ég á svo æðislegan mann, Atla Lilliendahl, sem styður mig svo svakalega í öllu, annars gæti ég ekki gert þetta allt,“ segir Alda og bætir við að það sé ýmislegt fleira framundan hjá henni.
„Ég er endalaust að semja og tvær stórar plötur eru tilbúnar að koma út nánast. Og sú þriðja í upptökum. Watch this space,“ segir Alda að lokum.
Kosninganúmer lagsins Set Me Free er 900-9906.