Besta afkoma Árborgar frá upphafi

Rekstrarafkoma Sveitarfélagsins Árborgar var jákvæð um 386,6 milljónir króna á árinu 2013 sem er 344 milljónum króna betri niðurstaða en áætlun gerði ráð fyrir.

Heildartekjur samstæðunnar voru 6.103 milljónir króna og heildarútgjöld 4.881 milljónir króna. Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) var því 1.222 milljónir króna sem er 315 milljónum króna hærra en áætlun gerði ráð fyrir.

Fjármagnsgjöld vega enn þungt, eða 460 milljónir króna nettó og afskriftir eru 361 milljón króna og er rekstrarafkoma samstæðunnar því 401 milljón króna fyrir skatta, eða 340 milljónum hærri en áætlun gerði ráð fyrir. Tekjuskattur nemur 14,8 milljónum króna á árinu.

Í tilkynningu frá sveitarfélaginu segir að afkoma af reglulegri starfsemi sé sú besta frá stofnun sveitarfélagsins.

Skuldahlutfall var komið niður í 130,2% í lok árs 2013. Í tilkynningu segir að rekstur sveitarfélagsins sé í traustum farvegi og hefur reksturinn skilað hagnaði fjögur ár í röð þrátt fyrir erfiða tíð og háar skuldir. Þetta hafi tekist með samstilltu átaki kjörinna fulltrúa, starfsmanna og íbúa sem hafa sýnt þessu verkefni góðan skilning.

Fyrri greinÞrestir skálma í Skálholt
Næsta greinEgill fékk afreksstyrk frá Landsbankanum