Besta rekstrarár í sögu Ölfuss framundan

Þorlákshöfn. Ljósmynd / Chris Lund

Sveitarfélagið Ölfus hyggur á jákvæðan rekstur upp á 938 milljónir króna árið 2025 samkvæmt fjárhagsáætlun sem samþykkt var eftir seinni umræðu á fundi bæjarstjórnar í dag. Í tilkynningu frá sveitarfélaginu segir að framundan sé besta rekstrarár í sögu sveitarfélagsins.

„Á forsendum þeirrar verðmætasköpunar sem tekist hefur að tryggja á seinustu árum eru nú allar forsendur til að skapa íbúum vaxandi velferð. Rekstur sveitarfélagsins skilar afgangi í bæði samstæðu og A hluta og stefnt er að innviðafjárfestingum sveitarfélagsins upp á tæplega 4 milljarða króna á næsta ári, og hátt í 9 milljarða á næstu 4 árum,“ segir í greinargerð með áætluninni.

„Íbúar njóta góðs rekstur bæði í lægri gjöldum, aukinni þjónustu og sterkari innviðum. Fasteignaskattshlutfall er lækkað í 0,22 og hefur það þar með verið lækkað um 45% á sex árum. Til grundvallar þessa trausta reksturs liggur uppgangur atvinnulífsins og ábyrgð meðferð almannafjár. Markmiðið er að gera enn betur og sækja fastar fram á forsendum verðmætasköpunar,“ segir ennfremur í greinargerðinni.

Ráðgert er að rekstrartekjur samstæðu verði tæpir 5,8 milljarðar króna og rekstrargjöld tæpir 4,4 milljaðar. Veltufé frá rekstri er áætlað rúmlega 1,8 milljarður króna og fyrirhugað er að greiða niður langtímalán niður fyrir 240 milljónir króna.

Brúttó fjárfestingar eru vel á fjórða milljarð króna. Þannig er áætlað að byggja nýjan leikskóla og koma þar með í veg fyrir biðlista, stækka höfnina, byggja nýjan miðbæ, hefja undirbúning að menningarhúsi og knattspyrnuhúsi svo eitthvað sé nefnt. Áfram verður haldið með þá stefnu að bjóða upp á hagkvæmar lóðir á kostnaðarverði og þannig reynt að mæta vaxandi húsnæðisþörf án auka skattlagningar á húsbyggjendur í formi lóðagjalda.

Fyrri greinJólasveinarnir koma á Selfoss
Næsta greinInnviðauppbygging og viðhald í Sveitarfélaginu Árborg