Stærsta réttahelgi ársins hér sunnanlands er nú um helgina. Í morgun var réttað í Hrunaréttum, Skaftholtsréttum og Fossrétt á Síðu.
Á morgun verður svo réttað í Tungnaréttum, Skeiðaréttum og Skaftárrétt og á sunnudag í Laugarvatnsrétt, Þóristunguréttum og Haldréttum í Holtamannaafrétti.
Þrjúhundruð manna fjöldatakmarkanir eru í réttum þessa dagana og í flestum tilvikum fá þeir bæir sem reka fé á fjall úthlutað „kvóta“ yfir mannfjölda sem mæta má til vinnu í réttirnar. Aðrir þurfa að sitja heima og láta kjötsúpuna duga.
Þrátt fyrir að minna væri af fólki en fé í Hrunaréttum í morgun heppnaðist dagurinn vel, enda er hann að margra mati besti dagur ársins. Sunnlenska.is rakst á Hrepphólabændur síðdegis í dag þar sem þeir ráku safnið heim meðfram Miðfelli.