Betra umferðarflæði er öryggismál fyrir alla íbúa Árnessýslu

Suðurlandsvegur ofan Ölfusárbrúar á venjulegum mánudegi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps skorar á Vegagerðina og stjórnvöld að hefja byggingu nýrrar Ölfusárbrúar sem allra fyrst.

Bókun vegna þessa var samþykkt á síðasta fundi sveitarstjórnar og þar er tekið undir bókun bæjarráðs Árborgar frá því í ágúst.

„Það er mikið hagsmuna- og öryggismál fyrir íbúa Grímsnes- og Grafningshrepps og íbúa Uppsveita Árnessýslu að umferðarflæði inn á Selfoss verði betra. Langar raðir liggja daglega upp að hringtorgi við Biskupstungnabraut og hægja þar með á umferð meðal annars úr Uppsveitum Árnessýslu,“ segir í bókun sveitarstjórnar en í búar Grímsnes- og Grafningshrepps sækja ýmsa þjónustu, til dæmis heilbrigðisþjónustu, á Selfoss.

„Því er mikilvægt að ekki séu stanslausar raðir og mikill biðtími eftir að komast inn á Selfoss. Ný Ölfusárbrú bætir umferðarflæði og umferðaröryggi í og við Selfoss fyrir alla íbúa Árnessýslu og marga fleiri, því er mjög mikilvægt að ný brú verði tekin í notkun sem allra fyrst,“ segir ennfremru í bókun sveitarstjórnar.

Fyrri greinKarpað um lóðafrágang og innréttingar á bæjarstjórnarfundi
Næsta greinLokakaflinn lakur á Ísafirði