Stangveiðitímanum í Veiðivötnum lauk miðvikudaginn 19. ágúst. Sumarið 2015 var að nokkru frábrugðið undanförnum árum, það voraði seint og vötnin voru köld og sum ísilögð í byrjun veiðitímans.
Venjulega hefur mesta veiðin verið í fyrstu tveimur veiðivikunum en nú var fjórða vikan best. Síðari hluti veiðitímans var aftur á móti nokkuð eðlilegur samanborið við síðustu ár.
Á stangveiðitímanum veiddust 17.970 fiskar, 7.671 urriði og 10.299 bleikjur. Það er heldur betri veiði en undanfarin tvö ár.
Eins og oft áður veiddust flestir fiskar í Litlasjó, 4.638. Þar veiddist óvenju mikið af smáfiski en þeir stóru voru færri en oft áður. Nýjavatn og Snjóölduvatn gáfu einnig fína veiði og voru skammt á eftir Litlasjó í fjölda veiddra fiska. Bleikja var uppistaðan í veiðinni í þessum vötnum.
Stærsti fiskurinn, 12,0 pund kom úr Ónefndavatni í síðustu veiðivikunni og mesta meðalþyngdin var 5,05 pund, einnig í Ónefndavatni.